Lýðheilsa er háð umhverfinu
“One Health” eða uppá íslensku ,,Ein heilsa” hljómar framandi fyrir flesta, þó hugtakið sé margfalt eldra og nái langt aftur í tímann. Það felur í sér viðurkenningu á því að umhverfisþættir geti haft áhrif á heilsu manna. Hægt er að rekja þessa fullyrðingu til texta gríska læknisins Hippocratesar (oft nefndur faðir nútíma læknisfræði) sem uppi var 460 f.Kr. 370 f.Kr. og skrifaði “On Airs, Waters and Places”. Þar lagði hann fram þá hugmynd að lýðheilsa væri háð hreinu umhverfi.
Hvað er One Health ?
,,One Health” er þverfagleg samstarfsaðferð til að leysa alþjóðlegar og umhverfislegar áskoranir tengdar heilsu. Verkefnið hefur það að markmiði að hanna og koma í framkvæmd áætlunum, stefnu, löggjöf og rannsóknum, þar sem saman koma mismunandi greinar til að vinna að betri heilsu almennings.
One Health nálgunin er sérstaklega mikilvæg á sviði matvælaöryggis, eftirlits með sjúkdómum sem geta borist frá dýrum í fólk svosem flensu, hundaæði ofl. og í baráttunni gegn sýklalyfjaónæmi.
Hvers vegna One Health nálgun?
Menn og dýr deila með sér lífríkinu og margar sömu örverur smita bæði. Þættir innan lífkerfisins eru samtengdir og því megnar einhliða aðgerð sem tekur bara á einum þætti vandamáls ekki að hindra eða útrýma því. Sem dæmi, þá næst ekki árangur í baráttu við hundaæði í mönnum nema sjónum sé beint að uppsprettu vírussins, sem er í dýri og berst þaðan í fólk.
One Health og Ísland
Á Íslandi ríkja sérstakar aðstæður þegar kemur að húsdýrahaldi til manneldis. Bú eru lítil á mælikvarða samkeppnisaðila erlendis og bústofnar hafa sumir hverjir verið einangraðir hér á landi um árhundruð. Þessi dýr eru laus við flesta sjúkdóma sem herja á búpening í nágrannalöndum og annarsstaðar í heiminum og afurðir þeirra lausar við lyfjaleyfar, eiturefni og sníkjudýr sem oft plaga gripi annarsstaðar. Mikill auka-kostnaður og vinna er í því fólginn að þurfa að bólusetja eða meðhöndla gripi með öðrum hætti gegn sjúkdómum og sníkjudýrum. Bændur erlendis líta því öfundaraugum til íslenskra kollega sinna þegar kemur að þessum hlutum, enda þekkja þeir hitt af eigin raun hitt. Aðstæður hérlendis eru einnig með þeim hætti að grasbítar fá að ganga úti og éta það sem þeim er eðlilegt, hreyfa sig og eiga félagsleg samskipti við önnur dýr sömu tegundar á landi sem laust er við eiturefni eða mengun. Þéttleiki hjarða grasbíta er minni og fyrir vikið minni hætta á sýkingum, sem komið geta upp þegar mikill fjöldi gripa er saman á litlu svæði.
One Health og sýklalyfjaónæmi
Sýklalyfjanotkun við búfjárhald á Íslandi er með því allra minnsta sem þekkist í heiminum.
Óhófleg notkun slíkra lyfja hefur valdið sýklalyfjaónæmi sem er einhver alvarlegasta heilsufarsógn sem að mannkynii steðjar nú um stundir og heilbrigðisyfirvöld um allan heim hafa miklar áhyggjur af. Fyrir utan að vera til staðar í hráu kjöti sýktra dýra þá berast ónæmar bakteríur í grunnvatn og jarðveg með úrgangi frá búum og menga þannig umhverfið. Þær geta átt greiðan aðgang að grænmeti og ávöxtum sem og öðru því sem vex á jörðinni og notað er til manneldis. Innflutningur á hráu kjöti er því ekki eina hættan við innflutning matvæla frá löndum þar sem sýklalyfjaónæmi er vandamál.
Augu aðila sem vinna að One Health verkefninu beinast óhjákvæmilega að þessu stóra máli og hvernig hægt sé að minnka hættu og koma í veg fyrir stórslys vegna baktería, mengunar og annarra umhverfisspjalla sem til verða af manna völdum t.d. við landbúnað.
Við og One Health
Það skiptir öllu máli að gengið sé um auðlindir þær sem við höfum aðgang að með virðingu og haldið þannig á málum að landbúnaður, hvort heldur kvikfjárrækt eða jarðrækt, hafi jákvæð áhrif á umhverfi, skepnur og fólk og séu stunduð með sjálfbærum hætti. Að ekki séu búnar til þannig aðstæður að bjóði uppá vandamál í nútíð eða framtíð.
Við hjá fyrirtækinu Pure Natura höfum frá upphafi verið mjög meðvitaðar um þessa hluti og reynt að koma þessum skilaboðum að hvar sem tækifæri hefur verið til. Vekja athygli á raunverulegri sérstöðu matvæla framleiddum við þau skilyrði sem á Íslandi eru og þeim verðmætum sem í því eru fólgin. Áður en við glötum þeim!
Til þess að við lendum ekki á þeim stað!
Tilurð og tilvist fyrirtækisins byggir á sjálfbærni, fullnýtingu, virðingu fyrir lífinu og öllum þeim afurðum sem sláturdýr gefa af sér, að lágmarka mengun og skapa atvinnu.
Þetta er að sjálfsögðu bara heilbrigð skynsemi … sem því miður hefur bara alls ekki verið svo sjálfsögð í alltof langan tíma.
Fyrir almenning og fyrirtæki þýðir One Health hugtakið í raun breytta hugsun og framkvæmd. One Health er hugtak sem reikna má með að lesendur eigi eftir að sjá og heyra í vaxandi mæli í framtíðinni. Við erum nefnilega öll í þessu saman, byggjum heilsu okkar á heilsu umhverfisins og lífríkisins í kringum okkur og þurfum öll að taka þátt í lausninni.
Heimildir:
1.