Warning: Undefined array key "social_network" in /home/customer/www/purenatura.is/public_html/wp-content/themes/Divi/includes/builder/module/settings/migration/SocialMediaFollowNetworkTwitterToX.php on line 69
Pure Natura - Kerfill- Nammið hennar ömmu

Þessa dagana höfum við verið að tína kerfil fyrir nýja bætiefnið okkar; Pure Harmony, sem kemur á markað 2018. Í þessa blöndu notum við bæði skógar- og spánarkerfil.
Kerfill er merkileg planta sem hægt er að hafa heilmikil not af, sem krydd-og tejurt sem og til heilsubótar. Skv. þjóðtrúnni bætir inntaka hans og kætir geð fólks, skerpir vitsmuni og hefur yngjandi áhrif á eldra fólk .
Alla plöntuna má nýta, en í Pure Harmony notum við blöðin og fræin, sem eru akkúrat tilbúin þessa dagana.

Kerfillinn, ásamt dilli, steinselju og fennel er af gulrótarætt . Margar undirtegundir eru til en hér verður fjallað um tvo þá helstu á Íslandi; spánarkerfil og skógarkerfil.
Latneska nafn spánarkerfilsins er Myrrhis Odorata. “Myrrhis” kemur úr grísku og þýðir “lykt af myrru” og “odorata” sem dregið er af latneska orðið ‘odorus’ þýðir ilmandi = s.s. ilmandi lykt af myrru. Spánarkerfillinn hefur um aldir verið notaður í matreiðslu, sem bragðefni í vín og til lækninga. Plantan á upprunaleg heimkynni sín í Mið-og S-Evrópu og er vinsæl kryddjurt, sem ræktuð er í matjurtagörðum nálægt eldhúsinu, þar sem auðvelt er að seilast í hana.

Ekki er mikið vitað um sögu spánarkerfilsins né tengingu við forna siðmenningu en þó er vitað, að plantan hafði einhverja tengingu við Maríu mey og í heiðinni trú við góðhjartaðar Keltneskar sumargyðjur.
Alla plöntuna má nýta til matar, þ.m.t. rótina. Blómin, sem eru smá, hvít og fjöldamörg eru kærkomin uppspretta fæðu fyrir hunangsflugur, fiðrildi og önnur skordýr snemmsumars, sem og þau dýr og fugla sem á þeim lifa.
Plantan er mild og ber gælunafnið “nammið hennar ömmu” þar sem óhætt þótti að leyfa börnum að narta í hana allt sumarið í görðum þar sem þau voru að leik.
Blöðin eru sæt, með anis og lakkrísbragði, sem og lykt, enda inniheldur kerfillinn ilmkjarnaolíu sem heitir anethole og er sama efnasamband og finna má í fennel og anis. Olían er róandi fyrir meltingarveg og dregur úr bólgum.

Blöðin bragðast eins og sykri hafi verið stráð yfir þau og ekki þarf að undra að plantan hafi verið vinsæl í matargerð á árum áður þegar sykur var ekki til. Tilraunir eru í gangi með að nota kerfilinn í stað sykurs líkt og stevía, fyrir þá sem eru með blóðsykursvandamál. Plantan hefur hátt næringargildi líkt og fleiri þekktar matjurtir sömu ættar s.s. sellerí, gulrætur, kóriander og fennel. Í henni er að finna plöntuefni með andoxunareiginleika, fenól-andoxara eins og zeaxanthin, lutein og criptoxanthin, A-vítamín (beta karótín), C-vítamín og E-vítamín. Þá er í honum að finna mikið magn B-vítamína. Þau leika lykilhlutverk í efnaskiptum kolvetna, fitu og próteina með því að vinna sem kóensím inni í líkamanum.

Þurrkuð laufin innihalda eftirfarndi % af ráðlögðum dagskammti í 100 gr.
69% fólat,
83% C-vítamín
195% A-vítamín
71% of Pýridoxín
134% kalk
399% járn
80% sink

Spánarkerfill hefur lengi átt sinn sess í alþýðulækningum. Fyrr á öldum, þegar plágan geysaði var hann ásamt annarri öflugri jurt sem við notum líka í vörurnar hjá Pure Natura, nefnilega ætihvönninni, notaður til að verjast sýkingum. Þessutan hefur hann mest verið nýttur til að auka matarlyst, bæta meltinguna, draga úr myndun á meltingargasi og krampa í þörmum, sem hóstameðal og til styrkingar lungum. Þá var neysla hans einnig talin lyfta andanum og hindra erfiðar hugsanir.

Helstu þekktu virku innihaldsefnin eru fyrrnefnd ilmkjarnaolía, sem inniheldur anetól, sesquiterpenes (germacrene-D, beta-caryophylllen), límóna, alfa-pinene, alfa-farnesen og myrcen. Að auki inniheldur kerfill andoxunarefni (flavonoids), fjölsykrur og ýmsar aðrar olíur sem hafa sótthreinsandi áhrif og þykja blóðhreinsandi.

Skógarkerfillinn (Anthriscus sylvestris) er minna vinsæl og minna notuð tegund kerfils. Hann er nýbúi á Íslandi, en er innfæddur víða í Evrópu, Asíu og Afríku. Í nágrannalöndunum gengur hann undir ýmsum nöfnum s.s. kúa-steinselja (cow-parsley) og villtur kerfill. Skógarkerfillinn hefur ekki verið rannsakaður jafn mikið og frændi hans spánarkerfillinn, en margt er þó líkt með skyldum.

Í umræðu um skógarkerfilinn hefur lítið farið fyrir upplýsingum um jákvætt eða nytsamlegt gildi þessarar plöntu, sem er þó sennilega ástæða þess að hann var í upphafi fluttur til landsins og settur niður í matjurtagarða. Helstu heilsubætandi eiginleikar skógarkerfils eru þeir sömu og spánarkerfilsins og eru all yfirgripsmiklir.
Fyrr á tímum var plantan talin kraftaverkajurt og standa fyrir ódauðleika, endurnýjun og nýtt líf.
Hann er sagður hafa væg vökvalosandi áhrif og losa líkamann við steina og sand í gallblöðru og nýrum, hafa góð áhrif á þvagsýrugigt, blóðþrýsting, hjarta- og æðakerfi, kólesteról og minnka tíðaverki. Einnig á hann að vera góður fyrir meltinguna, styrkja lungun, augun og sjónina og róa taugakerfið og almennt að örva heilandi krafta líkamans. Þá hefur hann sótthreinsandi og andoxandi eiginleika.
Skógarkerfillinn iheldur mikið magn bioflavíoða, sem aðstoða líkamann á ýmsan hátt, m.a. við upptöku á C-vítamíni. Plantan er einnig rík af ýmsum næringarefnum öðrum til vaxtar og viðhalds. Þá hafa rannsóknir sýnt að plantan inniheldur efnasambönd sem hafa styrkjandi áhrif á ónæmiskerfið.

Ekki er ráðlegt að nota jurtina á meðgöngu þar sem inntaka hans getur hugsanlega valdið samdrætti í legi.

Hjá Pure Natura notum við fræ og blöð kerfilsins í Pure Harmony blönduna okkar. Hann er valinn vegna yfirgripsmikillar virkni hans á heildarmyndina og til að bæta samspil innan líkamans með því að styðja við tauga-, meltingar- og öndunarkerfi. Einnig til að setja smá sætleika án samviskubits inní mataræðið.

http://scialert.net/fulltext/?doi=ajps.2012.163.171
http://www.nutrition-and-you.com/chervil.html
http://www.onlyfoods.net/cow-parsley.html
http://herbs-treatandtaste.blogspot.is/2010/11/cow-parsley-anthriscus-sylvestris.html
https://www.healthbenefitstimes.com/chervil/
http://healingweeds.blogspot.is/2013/05/wild-chervil.html
http://www.nutrition-and-you.com/chervil.html

Shopping cart0
There are no products in the cart!
Continue shopping
0